VIÐ ERUM TVEGGJA ÁRA Í DAG, ÞAÐ ER STÓRT OG SMÁTT

21.Mars'17 | 00:31

Í dag 21. mars fögnum við tveggja ára afmæli síðunnar www.grindavik.net. Síðan hefur slitið barnsskónum, en er að vissi leiti óviti enn þá. Hún hefur þjónað landsmönnum öllum og hafa pistlar farið yfir 100.000 lesningar. Við erum að sjá að meðaltali um og yfir 70.000 flettingar á miðlinum á mánuði sem er að okkar mati nokkuð gott. Við höfum gert þetta samhliða annasömum störfum og reynt að vera með miðilinn líflegan. Við erum þakklát þeim fjölmörgu sem hafa lagt okkur lið, þeim sem hafa hrósað okkur. Það er oft ekki auðvelt að ræða sum mál, sérstaklega i litlu bæjarfélagi. En við erum samt bara fólk um fólk frá fólki til fólks.

Við fórum af stað með síðuna til þess að geta verið málgagn fyrir hinn almenna íbúa í Grindavík. En við fundum það fljótt að landinn allur var með okkur á skjánum hjá sér. Margir pistlar og fréttir hafa ratað annað, það er gott. Þá er tekið eftir okkur í Grindavík. Nafla alheimsins eins og einn úr elítunni kallar bæinn okkar.

Það hefur verið lærdómsríkt að starfa við þennan miðil, sjá hvernig aðilar skiptast í hópa yfir hinum ýmsu málefnum. En í litlum bæjarfélögum er það oft að það er hver að klóra öðrum, og oft vont að fá mótlæti.

Á meðan á þessari vegferð hefur staðið hafa verið birtar 4000 fréttir og pistlar. Það gerir að meðaltali að 5,5 innslög á dag. Nokkuð gott.

Allt tekur þetta jú tíma, tímakaupið er lágt, ef það hefur þá komið til. Við höfum notað pening okkar meðal annars til að breyta og byggja upp síðuna, styrkt góð málefni, gefið góð verðlaun sem og að auglýsa hana annars staðar.

Við höfum oft startað umræðum, sum umræða hefur farið út fyrir velsæmismörk á kommentakerfum, en við ráðum því miður ekkert við það, þó við vildum.

Við viljum fyrst og fremst þakka bæjarbúum í Grindavík og þeim aðilum sem hafa styrkt okkur fyrir frábæra samleið með von um að á keflinu verði haldið.

Við viljum bjóða nýja penna og áhugasama að koma á ritvöllinn, sá völlur getur oft verið sleipur en skemmtilegur og gefandi. Það hafa aðilar skrifað hér inni um tilfinningar sínar og líf sitt. Einnig hafa aðilar komið hér inn með gleði og glens.

 

Hér að neðan má líta fyrstu orðsendingu okkar til lesenda miðilsins og er hún í fullu gildi enn í dag.

Takk fyrir okkur Ritstjórn www.grindavik.net

Kæri Grindvíkingur og aðrir lesendur. Við höfum nú opnað vefsíðuna Grindavík.net  Tilgangur okkar með síðunni er að efla allskyns umræðu um málefni Grindavíkur. Okkur hefur þótt vanta umræðuvettvang í Grindavík. Síðan er óháð og rúmar allar skoðanir.

Vefsíðan verður opin öllum þeim sem vilja tjá sig um hin ýmsu málefni sem að brenna á. Síðan er einnig hugsuð til skemmtunar og eru lítil takmörk fyrir því hvað rúmast innan hennar. Þið getið rætt um flest það sem að á ykkur brennur. Við munum hvetja fólk til þess að tjá sig. Tjá sig um t.d. veður og vinda, fjórhjól og fjallaferðir, menningu og listir, kaffi og kleinur, fæðingar og barnauppeldi, verðlag og verslun, heilsugæslu og höfnina, menntun og mátt, Silla og Valda, saltkjöt og baunir, túkall, evru og hreinlega allt það sem að gefur lífinu gildi. Það sem að við leggjum mest upp úr er almenn kurteisi og virðing fyrir skoðunum annara.

Við munum leggja okkur fram um að skoða og upplýsa lesendur okkar um hin ýmsu málefni Grindavíkurbæjar. Við munum horfa á málin frá öllum hliðum með aðeins eitt markmið að leiðarljósi. Það er að hjálpa til við það að finna bestu leiðina að markinu fyrir hinn almenna íbúa í Grindavík.

Grindavik.net

Er fólk um fólk frá fólki til fólks.

Með kveðju

Viktor & Palli