Birna er kokkur vikunnar - Lífið er best með miklum rjóma og smjöri

29.Mars'17 | 06:57

Ég er dassari.. Stundum lukkast það, stundum er útkoman drullumall. En eftirfarandi er frekar einfalt og ólíklegt að það klúðrist, auk þess sem það er fljótlegt, sem er alltaf plús. 

 

Innkaupalistinn:

Salat:
Kál, td. íssalat
Pera
Parmesanostur
Pekanhnetur

Parmapasta:
Hráskinka
Hvítlaukur (mikið)
Salt&pipar (mikinn svartan P)
Hvítvín (slatta)
Rjómi (mikið)
Parmesanostur (mikið)
Rucola
Pasta, td. Barilla tagliatelle

Latapæ
Smjör (td. 200gr)
Sykur (td. 200gr..)
Hveiti (td. 250gr….)
(haframjöl)
epli&kanill eða rabbarbari..
RJÓMI

Salat

Ég vona að þið gefið þessu salati séns, svo einfalt og gott:
Saxa kálið aðeins, skera peruna smátt, rífa parmesanostinn yfir og leyfa þessu tvennu að liggja saman ofan á salatinu þangað til bera á það fram. Rista hneturnar á pönnu með smá olíu og slatta af salti (auðvelt að brenna, fylgjast vel með, hræra látlaust og kæla svo áður en þessu er dúndrað í salatið.
Hægt að nota fetaostsolíu td. ef salatið þykir þurrt.

Pasta
Mér finnst gott að steikja hráskinkuna upp úr smá smjöri svo hún verði aðeins meira chrunchy. Hvítlaukinn út í, haug af honum. Hvítvínið næst, láta það aðeins malla, rjóminn og osturinn, salt, pipar. Pastað.. (helst að vera búin að sjóða það (skv. Leiðbeiningum á pakka)). Aðeins að saxa rucolað svo þægilegra sé að snæða réttinn, og blanda því saman við þegar allt er klárt og tilbúið til framreiðslu. Plís gerðu bara nóg af sósu, helst aðeins of mikið. Það er svo grátlegt að borða þurrt pasta! Og fullt af parmesanosti yfir allt saman.

Latapæ
Heyrðu já, og þegar maður er á síðasta snúning og búinn að gabba einhvern í mat og vill hafa smá eftirrétt þá er Latapæ alger snilld fyrir óskipulagða hauga með athyglisbrest sem leiðist að baka. 
Setjum jafnmikið af smjöri og sykri í pott (ss. Jafnmikið í grömmum), láta sykurinn bráðna í smjörið og svo er sett sama magn af hveiti í lokin, stundum bæti ég aðeins við hveitið eða set líka haframjöl í, en það er frjálst.. Þá er kexið klárt.
Svo saxar maður eitthvað sem manni þykir gott, td. Epli með smá kanil, eða súran, súran rabbarbara (mér finnst það best) og dúndrar kexinu ofan á.. Og bökum í ofni á meðan við borðum pastað, sirkabát þangað til það er tilbúið. Og þetta Latapæ er vonlaust ef það gleymist að kaupa rjóma og þeyta. Gleðilega hátíð!

 

Mig langar að skora á dóttur konunnar sem gaf mér fyrst Rabarbarapæ til þess að koma með næstu uppskrift. Hún heitir Halla Sveins og ég vona að hún galdri fram eitthvað úr saltfiski.