Alexander Veigar Þórarinsson í viðtali hjá Fótbolti.net

Forfallinn hjólabrettafíkill sem kennir stærðfræði

16.Apríl'17 | 04:15

Alexander Veigar Þórarinsson er mættur aftur í Pepsi-deildina eftir að hafa leikið síðustu sex ár í næstefstu deild. Segja má að Alexander Veigar hafi útskrifast með hæstu einkunn úr Inkasso-deildinni í fyrra því hann var valinn leikmaður ársins eftir að hafa hjálpað Grindvíkingum upp um deild. 

 

Alexander Veigar er líflegur karakter sem hefur meðal annars hæfileika þegar kemur að hjólabrettum og breakdans. 

„Ég er forfallinn hjólabrettafíkill frá því að ég var yngri. Í 4-8. bekk vorum við alltaf á bretti og ég var orðinn góður þó að ég segi sjálfur frá,“ segir Alexander og brosir. „Brettið er eiginlega alveg farið á hilluna núna. Það væri ekki vinsælt ef maður myndi meiða sig á því í dag. Maður verður líka þreyttur á þessu. Þetta er ógeðslega erfitt. Samt var maður á þessu heilu dagana þegar maður var yngri.“ 

 

Rodney Mullen var átrúnaðargoð Alexanders á hjólabrettunum á sínum tíma en nokkrir ungir strákar úr Grindavík fengu bæjaryfirvöld til að búa til aðstöðu til að geta leikið sér á brettunum. 

 

„Ég var reyndar ekki með þeim en nokkrir strákar fóru upp á bæjarskrifstofu og komu með hugmynd að því að reisa skatepark. Það voru settar þrjár milljónir í það og þetta er ennþá fyrir utan skólann í dag. Þetta virkar alveg jafn vel og þá,“ segir Alexander sem reyndi einnig fyrir sér í breakdans á yngri árum. 

„Ég á medalíu frá fyrsta breakdansmóti Íslands frá því ég var svona 12 ára. Natasha Royal var með námskeið í Grindavík 1-2 í viku í eitt ár og það var ógeðslega gaman.“ 

Uppáhalds trixið er frá Ronaldinho 
Í hjólabrettunum og brakedansinum skiptir hugmyndaflugið máli og Alexander hefur einnig sýnt hugmyndaflug sitt í fótboltanum í gegnum tíðina þar sem tækni hans með boltann er mögnuð. „Ég var mikið með bolta þgar ég var lítill. Fyrir hverja einustu æfingu tek ég bolta og reyni að gera einhver trikk. Það er ennþá með því skemmtilegra sem ég geri í dag,“ segir Alexander en uppáhalds trixið hans er „Elastico.“ 

„Ég geri það reglulega. Ég er orðinn öruggur með þetta og þori að gera þetta. Ronaldinho gerði þetta frægt á sínum tíma. Hann var aðal átrúnaðargoðið manns þegar hann var upp á sitt besta og maður var alltaf að reyna að apa upp eftir honum.“ 

 

Þrátt fyrir að hafa prófað ýmsa hreyfingu þá var fótboltinn alltaf í efsta sæti hjá Alexander á yngri árum. Hann segir frábært fyrir unga íþróttakrakka að alast upp í Grindavík. „Það er mikið lagt í íþróttastarfið í Grindavík og uppvaxtarárin lituðust af því. Það var skóli og svo fór maður út í fótbolta. Ég var ekkert í körfunni. Ég fór á eina æfingu og fíla það alls ekki,“ sagði Alexander en hver er lykillinn á bakvið það að Grindavík eigi lið í efstu deild í bæði karla og kvennaflokki í fótbolta og körfubolta? 

„Þetta er magnað hjá 3000 manna bæjarfélagi. Ég held að þetta sé að miklu leyti til út af áhuga velunnara sem leggja mikið í þetta. Það spilar mjög stóran þátt í þessu. Íþróttaáhuginn er mikill og það eina sem kemst að í spjalli við mig út í bæ er fótbolti.“ 

 

Elskaði að vera á Vestfjörðum 
Eftir að hafa byrjað meistaraflokksferilinn með sínu liði Grindavík þá ákvað Alexander að ganga í raðir Fram fyrir sumarið 2009. Samtals spilaði hann þó einungis átta leiki á tveimur árum þar. 

„Eftir á var það kannski röng ákvörðun af því að ég spilaði lítið. Ég var tvítugur og langaði að prófa eitthvað nýtt. Síðan kom í ljós að ég var ekki nógu góður til að vera í liði sem var 4-6. besta lið landsins. Það var samt góð reynsla.“ 

„Eftir tvö ár í Fram hafði BÍ/Bolungarvík samband við mig. Ég vildi prófa eitthvað ævintýri og þetta var ógeðslega gaman. Ég elskaði hvert einasta sumar og nú á ég endalaust af vinum fyrir vestan . Ég gæti alveg séð fyrir mér að búa þar í framtíðinni. Þó að ég hafi farið niður í 1. deildina þarna þá sé ég ekki eftir neinu með BÍ.“ 

BÍ/Bolungarvík fór í undanúrslit Borgunarbikarsins 2011 undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar en liðið sló meðal annars út þáverandi Íslandsmeistara Breiðabliks í eftirminnilegum leik í 16-liða úrslitunum. Árið 2013 var liðið síðan nálægt því að fara upp í Pepsi-deildina undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar. 

„2013 áttum við að fara upp miðað við mannskap. Við vorum bara tveimur stigum frá því. Við vorum bara einum leik frá þessu. Það voru margir leikir sem við klúðruðum gjörsamlega og eftir á að hyggja vorum við með ógeðslega gott lið.“ 

Félög úti á landi eru oft ósátt með það hversu erfiðlega gengur að fá leikmenn af höfuðborgarsvæðinu í sínar raðir. Alexander Veigar hvetur unga leikmenn til að prófa að spila úti á landi. „ Ég mæli 100% með því. Það er margfalt gáfulegra að fara út á land og spila meistaraflokksbolta ef menn eru í basli við að komast í lið í kringum tvítugt. Þetta er líka gott til að þroskast, fara aðeins af hótel mömmu og búa einn eða með einhverjum strákum.“ Smelltu hér til að lesa viðtalið í heild sinni

Frétt frá Fótbolta.net.