Humar og bleikja

Kokkar vikunnar eru hjónin Helga og Hjörtur

19.Apríl'17 | 06:44

Hún Halla Kristín matgæðingur síðustu viku skoraði á okkur hjónin, Helgu Þórarinsdóttur og Hjört Gíslason, að koma með næstu uppskrift á vefinn. Hún segir að við séum miklir matgæðingar og þykir okkar það umtalsverður heiður frá öðrum eins kokki og Höllu.

 

Okkur finnst fátt skemmtilegra og betra en að dunda okkur saman í eldhúsinu og útbúa góða veislu fyrir gamla settið. Oftast verður fiskur fyrir valinu og efst á listanum hjá okkur eru humar, bleikja og saltfiskur og svo ótal margt fleira.

 

Hér ætlum við að vera með uppskrift að humarforrétti, sem okkur finnst afskaplega góður, en hann smökkuðum við fyrst í Vestmannaeyjum hjá vinum okkar Bobbu og Gísla, þegar Gísli sonur þeirra tók að sér að matreiða fyrir okkur eldra fólkið.

 

 

Humarforréttur: Humar í brauði

 • Innihald:                        

 • Samlokubrauð

 • Humar

 • Smjör                                       

 • 1 Hvítlaukur

 • Rifinn ostur

 • Steinselja

 • Sítrónupipar

Aðferð:

Bræðið smjörið, pressið hvítlaukinn eða saxið smátt og blandið saman ásamt steinseljunni. Skerið skorpuna af brauðinu og fletjið það út með kökukefli báðu megin. Penslið brauðið með hvítlaukssmjörinu Skelfletið humarinn, hreinsið og leggið hann á brauðið, einn eða fleiri eftir stærð. Kryddið með sítrónupiparnum. Rúllið brauðinu upp og penslið að ofan og stráið smávegis af osti yfir. Bakið í ofni við 200°C í 10-15 mín.
Magnið, það er fjöldi humarhala, brauð og annað, fer eftir stærð halanna og fjölda þeirra sem í mat eru; sömuleiðis hvort um er að ræða forrétt eða aðalrétt. 


Okkur finnst best að hafa rúllurnar á grind inni í ofninum svo þær bakist jafnt og verði ekki blautar að neðan. Einnig höfum við prufað að strá rifnum osti yfir rúllurnar og það kemur mjög vel út. Við höfum líka notað Þúsundeyjasósu og ananas- og chilisósu og létt salat með. Allt kemur það mjög vel út.

 

Aðalréttur: Bleikja með hlynsýrópi

Fyrir tveimur árum vorum við stödd á Akureyri og fórum á frábæran veitingastað þar sem við fengum okkur bleikju, sem okkur fannst afskaplega góð. Kokkurinn neitaði að gefa okkur upp uppskriftina þótt hann væri gamall kunningi. Við „efnagreindum“ hana því bara á staðnum og þetta varð niðurstaðan hjá okkur heima í Grindavík fljótlega eftir það. Auðvitað með Íslandsbleikju.

Innihald:

 • 1 kg bleikjuflök, beinhreinsuð

 • 100 g rækja

 • ½ bolli af möndluflögum

 • 2 msk capers

 • 2 msk súrsaður perlulaukur

 • Hlynsýróp

 • Sítrónupipar

 • Smjörlíki

 • Sesamolía

 • Kartöflur

Aðferðin:

Hitið smjörlíki með matskeið af sesamolíu á pönnu. Flökin hreinsuð og skorin í hæfilega bita og krydduð með sítrónupipar. Þau eru fyrst steikt á holdhliðinni rétt til að fá á þau fallegan lit. Síðan eru þau steikt á roðhliðinni og stundum er gott að hafa roðið stökkt og borða það með fiskinum. Möndlurnar eru ristaðar á þurri pönnu þannig að þær gulni en brenni ekki. Þegar bleikjuflökin eru að verða tilbúin setjum við perlulaukinn og capers út á hana og hellum smávegis að hlynsýrópi yfir hvert flakastykki og látum krauma augnablik. Ekki of lengi því þá brennur sýrópið á pönnunni. Loks er rækjunni dreift yfir og bleikjan borin fram annað hvort í pönnunni eða á góðu fati.

Okkur finnst gott að hafa kartöflur og gott salat með bleikjunni. Ýmist erum við með kartöflurnar einfaldlega soðnar, en stundum sjóðum við þær og skerum síðan í hæfilega bita og steikjum upp úr mikilli olíu á pönnu og stráum grófu salti yfir.

Þegar við erum búin að gera bæði humar og bleikju góð skil er lítið pláss eftir fyrir eftirrétt, nema kannski í fljótandi formi. Því sleppum við uppskrift að eftirrétti. Þá finnst okkur kælt hvítvín fara afskaplega vel með bæði forrétti og aðalrétti.