Fiski taco með kóríandersósu í djúpsteiktri „taco-skel“

Kokkur vikunnar er Ragnheiður

10.Maí'17 | 11:23

Ragnheiður Eyjólfsdóttir eða Ragga er kokkur vikunnar, hún starfar sem mannauðsstjóri hjá HS Veitur hf, hún er ekki bara snillingur á Excel, heldur er hún líka snilldarkokkur 

 

 

Ég ætla ekki að eigna mér þessa uppskrift en hef sett saman tvær sniðugar uppskriftir í eina og útkoman er eitthvað sem mér finnst alveg brill. Fiski uppskriftina fann ég á Vínótek síðunni en djúpsteiktu taco-skelina í matgæðingablaði sem ég greip með mér í einhverri búð í útlöndum um árið. Það er eiginlega smekksatriði hvaða fiskur er notaður, -þorskur eða lúða eru í uppáhaldi hjá mér en sumir nota lax.

 

Best er að byrja á sósunni því þá blandast bragðefnin saman á meðan fiskurinn er eldaður.

 

 

Lime og kóríander sósa

1 dós sýrður rjómi

Rifinn börkur af einu lime

Safi úr ca. ½ lime

Góður slurkur af fínt söxuðum ferskum koríanderlaufum

Hvítlaukur eftir smekk, ég notaði ca. tvo hvítlauksgeira

Rauður chili, fræhreinsaður og mjög fínt saxaður

Dass af ólífuolíu, ca, ½ msk.

Salt og pipar

Öllu hrært vel saman og kælt þar til máltíðin er klár til samsetningar

Ofnbakaður eða grillaður fiskur fyrir fiski taco

Setjið fiskinn í eldfast fat ef hann á að fara í ofn, annars eins og ykkur finnst best að grilla hann. Kreistið vel af limesafa yfir fiskinn og kryddið með chili eða cajunkryddi, cummin, slti og pipar. Gott að lofa fiskinum að marinerast í ca. Korter áður en hann fer í ofninn eða á grillið.

 

Skeljarnar 

Á meðan er snilld að útbúa skeljarnar sem eru í raun bara djúpsteiktar tortilla kökur sem eru mótaðar eins og taco-skeljar. Ég nota bara góða pönnu og olíu sem þolir mikinn hita til að gera þetta því það þarf ekki djúpsteikingarpott eða djúpan pott þar sem þetta gerist svo hratt. Ég set kökurnar ofan í heita olíuna, lofa þeim að blása út og brúnast aðeins (MJÖG STUTT) og sný þeim svo við og nota þá grilltöng til að halda aðeins við þær til að móta þær í taco lögun. Svo læt ég dropa af þeim með því að leggja þær yfir kantinn á djúpri skál til að þær haldi laginu.

ATH: Það má að sjálfsögðu hoppa yfir þetta skref og nota annað hvort tortilla kökurnar án þess að djúpsteikja eða nota tilbúnar taco-skeljar en þetta tekur réttinn upp á næstu hæð.

 

Þegar allt er klárt þá er raðað inní skeljarnar, gott er að setja saxaða ferska tómata, fiskinn sósuna og enda með að sáldra yfir fínt söxuðum graslauk og kóríander en þarna ræður smekkur hvers og eins.

 

Berið fram með góðu fersku salati og ekki er verra að skola þessu niður með ísköldu hvítvíni eða góðum bjór.

 

Alveg snilld á sumarkvöldunum sem framundan eru


Ég skora á Jóhann Kristmundsson mág minn, hann er alltaf að kokka upp eitthvað sniðugt