Er sódavatn óhollt? Hefur koltvísýringurinn slæm áhrif á líkamann?

19.Júní'17 | 00:19

Ekki er vitað til þess að koltvísýringur úr kolsýrðum drykkjum hafi nein alvarleg áhrif á líkamann. Koltvísýringur breytist í kolsýru í lausn og sýrir þannig lausnina eitthvað, en í flesta gosdrykki er einnig bætt annarri sýru til rotvarnar. 

 

 

Þetta á þó ekki við um sódavatn sem slíkt, en það inniheldur kolsýru og natríum bíkarbónat, sem er salt af kolsýru. Að auki er í sódavatni örlítið af matarsalti, natríumsúlfati og kalsíumklóríði. Gömul aðferð til kolsýringar var að sýra natríum bíkarbónat í drykkjum, en við það verður bíkarbónatið að kolsýru og er nafnið “soda” dregið af hinu enska heiti natríums, “sodium”.

 

 

 

Helstu neikvæðu áhrif kolsýrðra drykkja eru á tennur. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að sýra í drykkjum, jafnt gosdrykkjum og söfum, getur stuðlað að glerungseyðingu tanna (sjá heimild). Þessi áhrif eru þó eitthvað umdeild og líklega má telja áhrif koltvísýrings sem slíks þar minniháttar, enda sýrir hann lausnina ekki mikið.

 

 

Meðal annarra hugsanlegra neikvæðra áhrifa af sódavatnsdrykkju má nefna neyslu matarsalts, en mikil saltneyslahefur meðal annars verið tengd við háþrýsting. Saltmagnið er þó í sjálfu sér sáralítið í sódavatni. Við mikla drykkju sódavatns, til dæmis sem nemur tveimur lítrum á dag, getur inntaka matarsalts náð 1 grammi, en samkvæmt manneldismarkmiðum er talið óæskilegt að heildarsaltneysla fari yfir 8 grömm á dag og í samnorrænum ráðleggingum er saltneysla undir 5 grömmum á dag ráðlögð. Hins vegar eru sölt líkamanum mikilvæg, til dæmis ef fæðuinntaka er lítil eða þegar mikill vökvi tapast við langhlaup og aðra langvarandi áreynslu.

 

Af kostum kolsýrðra drykkja má nefna að kolsýran hefur rotverjandi eiginleika í drykkjum, þó yfirleitt sé hún ekki notuð í svo miklu magni að kolsýran dugi ein og sér til rotvarnar. Að auki þykir hún gefa ákveðna bragðeiginleika og svalandi áhrif, sem virðast vera meiri í kolsýrðum drykkjum en öðrum. Hins vegar fylgir loftmyndun neyslu kolsýrðra drykkja, sem getur framkallað ropa, auk þess sem kolsýran örvar framleiðslu magasýra. Fólki með truflanir í meltingarstarfsemi, í maga, lifur eða gallblöðru, hefur einstaka sinnum verið ráðlagt að forðast neyslu kolsýrðra drykkja af þessum sökum.

Í líkamanum myndast koltvísýringur úr orkuefnaskiptum, við niðurbrot orkuefnanna kolvetnafitu og prótíns, og hann losnar úr líkamanum með öndun eftir þörfum. Koltvísýringur gegnir einnig mikilvægu hlutverk í svonefndu bíkarbónat-bufferkerfi líkamans, þar sem koltvísýringur getur myndað kolsýru með vatni (eins og í drykkjum) og kolsýran getur hvarfast áfram í bíkarbónat og öfugt. Koltvísýringur og kolsýra eru þannig fjarri því að vera líkamanum framandi og það magn koltvísýrings sem er innbyrt úr drykkjum er einungis brot af því sem líkaminn framleiðir sjálfur.

Visindavefurinn

Heimild:

  • Þorbjörg Jensdóttir, Inga Þórsdóttir, Inga B. Árnadóttir, W. Peter Holbrook. "Glerungseyðandi drykkir á íslenskum markaði." Læknablaðið2002;88:569-72.