Nokkrir úr liði Grindavíkur meiddir

7.Júlí'17 | 09:58

Nokkuð margir úr liði meistaraflokks karla í knattspyrnu eru nú meiddir. Óli Stefán þjálfari Grindavíkur á því erfitt verkefni framundan þrátt fyrir gott gengi okkar liðs hingað til. Við vonum að Óli og hans menn finni lausnir á þeim vanda sem þeir standa nú frammi fyrir. 

Fótbolti.net fór ofan í saumana á meiðslalista Grindavíkur og ræddi við Óla um það hvort verið væri að leita að liðsstyrk.

¨Mikil meiðsli herja á Grindvíkinga fyrir leik liðsins gegn KA í Pepsi-deildinni á sunnudag. Hákon Ívar Ólafsson meiddist á hné í síðasta leik gegn Breiðabliki. Hákon verður frá í þrjá mánuði og því er tímabilið líklega búið hjá honum. 

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag. 

Rodrigo Gomes Mateo hefur ekkert komið við sögu hjá Grindavík í sumar og möguleiki er á að hann verði ekkert með. Rodrigo verður frá í 8-12 vikur til viðbótar en hann er nú á Spáni í endurhæfingu. 

Landi hans Juanma Ortiz er einnig meiddur og verður áfram frá keppni næstu vikurnar. 

Andri Rúnar Bjarnason, markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar, fór meiddur af velli gegn Breiðabliki í síðustu umferð og hann er tæpur fyrir leikinn gegn KA sem og Will Daniels. 

Milos Zeravica var ekki með gegn Breiðabliki en hann mætir á æfingu í kvöld á nýjan leik. 

Kristijan Jajalo, markvörður Grindvíkinga, hefur verið að glíma ið meiðsli sem og markverðirnir Maciej Majewski og Anton Helgi Jóhannsson. Þeir hafa allir verið fjarverandi á æfingum í vikunni. 

Björn Berg Bryde og Sam Hewson verða síðan báðir í leikbanni í leiknum gegn KA á sunnudag. 

Óli Stefán segir að hann leiti nú að liðsstyrk til að bæta við hópinn þegar félagaskiptaglugginn opnar þann 15. júlí. 

„Við erum að skoða á fullu en það er ekkert komið í ljós," sagði Óli Stefán við Fótbolta.net í dag¨ 

Fótbolti.net.