Hamingjuhornið

Sársaukin sem þú upplifir núna er hluti af hamingjunni sem þú upplifðir þá!

8.Júlí'17 | 05:42

Þegar einstaklingur er að ganga í gegnum áföll eða erfiða tíma, er frumkvæðið eitt það fyrsta sem viðkomandi glatar. Ef okkur langar að vera til staðar fyrir einhvern sem er t.d. að upplifa sorg er ekki nóg að segja ,,þú veist hvar ég er ef þú þarft á mér að halda“ eða ,,ekki hika við að hafa samband"

því miklar líkur er á að viðkomandi finni það ekki hjá sér að sækja í hjálpina. Mun betra væri að segja ,,ég kem á morgun kl. 17.00“ eða annað sem hentar. Þegar fólk er undir miklu álagi er það oft ekki meðvitað um eigin þarfir og því þarf að koma fram með skýr skilaboð.

Þegar við veljum að vera til staðar fyrir aðra sem eru að fara í gegnum erfiðleika erum við oft upptekin af því hvað við eigum að segja en stundum eru orð óþörf en nærvera okkar ómetanleg. Við megum ekki vera of upptekin af eigin ímynd því ef við erum sönn í okkur sjálfum og erum tilfinningalega til staðar, þá skiptir það öllu máli. Mennska okkar kemur fram í hlýju og skilning, en ekki endilega hárréttum orðum.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru t.d að fara í gegnum mikla sorg hafa líka gott af verkefnum sem eru ekki mörkuð af sorginni. Það er þetta jafnvægi sem skiptir máli og því getur göngutúr eða heimsókn á kaffihús verið mikilvæg skref fyrir þann sem hefur verið í þungu ferli. 

Sorgarvinna er í sjálfu sér ekki ólík sjálfstyrkingu - en þar tölum við gjanan um kjarkæfingar. Einstaklingurinn skapar sjálfan sig á nýjan leik - því allt er breytt. Hann rís smám saman aftur upp af mun reyndari grunni og sagan því önnur en áður. Þetta gerist smám saman og ómetanlegt að hafa einhvern sér við hlið sem virðir þessi skref og ýtir stundum undir að þau verði tekin. 

Falleg finnst mér setning sem er tengd myndinni Shadowlands ,,The pain now is part of the happiness then". Sársaukin sem þú upplifir núna er hluti af hamingjunni sem þú upplifðir þá!

HAMINGJUHORNIÐ

Kærleikskveðja 
Anna Lóa