Katla Þormars skrifar

Ég ákvað í eitt skipti fyrir öll að ég væri mikilvægari en nokkur pappír

10.Júlí'17 | 05:27

Síðan ég byrjaði að fylgja innsæinu árið 2015 hefur það komið mér í ótrúlegustu aðstæður. Ef ég hefði ekki uppgötvað innsæið og ákveðið að fylgja því hefði ég aldrei endað atvinnulaus með aleiguna í ferðatösku á miðjum sveitavegi í Skotlandi að hlusta á hálfþrítuga grátandi taugahrúgu sem ég hef þekkt í viku á meðan hún þylur upp ævisögu sína, án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætli að gera næst.

Ef ég hefði ekki uppgötvað innsæið þá liti ég klárlega mun betur út á pappír í dag. Ég ætti pottþétt meiri pening og væri líklega búin að dúxa framhaldsskólann og komin hálfa leiðina að B.A. gráðu í einhverju gáfulegu. En pappír segir ekki til um það hvernig þér líður. Það stendur ekkert á þessum pappír um það hvort þú sért hamingjusamur eða ekki. Það stendur heldur ekkert um það hvernig manneskja þú ert. Það vantar nefnilega helling á þennan pappír. Og pappír er viðkvæmur. Hann getur fuðrað upp hvenær sem er og hvað er þá eftir? Hver ertu þá?

Þetta er spurning sem ég stóð frammi fyrir árið 2015. Fram að þeim tímapunkti hafði ég lifað fyrir pappírinn. Allt til að láta hann líta betur út. Tíur í skóla litu vel út á pappír svo ég passaði mig að vera best í öllum fögum. Að vera dugleg í vinnu leit vel út á pappír svo ég passaði mig að taka að mér eins mikla vinnu og ég gat. Ég mætti á æfingar því það er nauðsynlegt að hafa a.m.k eina íþrótt á pappírnum. Ég lifði fyrir þennan blessaða pappír. Ég lagði svo hart að mér til að láta hann líta vel út að líkaminn gaf sig. Og hægt og rólega gat ég ekki lengur haldið í við pappírinn. Ég gat ekki mætt í skólann, gat ekki mætt á æfingar og gat ekki mætt í vinnuna. Allt í einu var pappírinn tómur.

Alla mína ævi hafði ég haldið að ég væri pappírinn. Á meðan ég liti vel út á pappír þá væri ég góð manneskja. En þegar hann er tómur, hver er ég þá? Ef það er ekki neitt á pappírnum þá hlýt ég að vera ekki neitt? Í langan tíma gerði ég allt sem ég gat til að koma einhverju aftur á pappírinn. Ég mætti í skólann og vinnuna þó ég gæti varla staðið fyrir verkjum. Þangað til ég gafst endanlega upp á þessum helvítis pappír. Ég krumpaði hann saman, henti honum í ruslið og ákvað að byrja að lifa fyrir sjálfa mig. Ég ákvað í eitt skipti fyrir öll að ég væri mikilvægari en nokkur pappír. Að ég myndi aldrei aftur fórna hamingjunni og gleðinni fyrir eitthvað ímyndað blað. Ég hætti að lifa fyrir pappírinn og fór að hlusta á sjálfa mig. Ef mér FANNST eitthvað rétt þá fylgdi ég því eftir. En ef tilfinningin var röng þá lét ég það vera. Sama hversu vel það leit út á pappír. Hægt og rólega fór mér að líða betur. Heilsan varð aðeins betri í hvert skipti sem ég sagði nei við einhverju sem mig langaði ekki að gera og já við einhverju sem lét mér líða vel. Í hvert skipti sem ég stóð með sjálfri mér dofnuðu verkirnir örlítið og smám saman fann ég fyrir létti.

Ég þarf ekki lengur pappír til að segja mér að ég sé nógu góð. Vegna þess að líkaminn lætur ekki blekkja sig. Hann kann ekki að lesa og er alveg sama hversu vel þú lítur út á einhverjum pappír. Ef þú ert ekki samkvæmur sjálfum þér þá mun hann láta þig vita. Hvort sem það eru andleg veikindi, líkamlegir verkir eða almenn vanlíðan. Hann mun gera allt sem hann getur til þess að ná til þín. Ekki vera eins og ég og halda í þrjóskuna til síðasta blóðdropa. Ekki þagga niður í líkamanum þangað til hvert einasta líffæri er farið að öskra á þig. Þangað til hann slekkur á sér og slær þig utanundir í leiðinni (tvöfalt kjálkabrot er ekkert grín fólk, mæli ekki með). Við eigum það nefnilega til að einblína á að þóknast öðrum og gera það sem við teljum að við EIGUM að gera í staðinn fyrir það sem okkur LANGAR gera. Og það er ekki að gera neinum neina greiða.

 

Ef þú þjáist af einhvers konar verkjum eða vanlíðan þá hvet ég þig til að skoða hvort þú sért að lifa fyrir pappírinn og hvort það sé raunverulega þess virði. Því þarna er ég á miðjum sveitavegi í Skotlandi, pappírslaus, atvinnulaus og óviss um framtíðina en full af létti á sama tíma. Því ég vissi að innsæið væri að leiða mig í rétta átt. Og sú tilfinning er eitthvað sem finnst ekki á neinum pappír.