Rannveig Jónína Guðmundsdóttir skrifar

SORGIN

15.Júlí'17 | 10:33

Það upplifa ekki allir sorg á sama hátt. Sjálf upplifði ég eina mestu sorg sem ég hef nokkurn tímann upplifað á ævi minni þegar bróðurdóttir mín lést í bílslysi í janúar síðastliðinn. Rannveig skrifaði grein inn á pigment.is um sorgina.

Fyrir mér var ég ekki bara að missa frænku mína heldur fannst mér eins og að litla systir mín væri horfin úr lífi mínu. Dagurinn sem hún dó er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Ég get þulið hann upp frá A-Ö og man eftir lykt, veðri og öllu sem gerðist.

Á tímabili hélt ég að ég gæti ekki haldið neinu áfram, ég sá ekki fyrir endann á sorginni, sá ekki fyrir endann á því hvenær mér myndi hætta að líða svona illa. Ég missti svefn í fjóra sólahringa ásamt því að ég nærðist einnig ekkert þann tíma. Næstu dagar og vikur voru ekki auðveldir en það fór lítið fyrir svefni enda flaut maður áfram í þokukenndu ástandi. Það var eins og það væri risastór steypuklumpur ofan á bringunni á mér og stundum náði ég ekki andanum fyrir vanlíðan og kvíða. Hnúturinn hélt áfram og var sár stingur og verkur sem hvarf ekki.

 

Mikilvægt að standa saman

Næstu dagar og vikur voru virkilega erfiðir en við fjölskyldan erum heppin. Við erum gríðarlega samheldin og héldum/höldum þétt utan um hvort annað. Ef ég ætti ekki fjölskylduna mína og ekki síst manninn minn að þá veit ég ekki hvar ég væri í dag. Við sóttum styrk í hvort annað og gerum það enn þann dag í dag. Við erum dugleg að tala saman og rifjum reglulega upp fallegar minningar sem ylja manni á erfiðum dögum.

Dagarnir í dag eru misjafnir í dag eins og þeir eru margir. Ég hugsa til hennar á hverjum degi, steypuklumpurinn er enn til staðar en þyngslin eru mis mikil. Stundum er eins og hann sé heill og aðra daga er eins og hann sé nánast að hverfa. Þegar fólk segir að tíminn lækni öll sár þá er það ekki rétt. Tíminn mun líða áfram og við lifum áfram með fallegar minningar en sárin verða alltaf til staðar. Dýpsta sárið er í hjartastað og stundum rifnar það upp en á milli kemur smá hreistur á það.

Það er ótrúlega erfitt að sakna svona sárt, erfiðara en orð fá lýst. Myndirnar og minningarnar lifa áfram, eins og ég sagði í pistli hér áður þá verðum við að muna að njóta, elska og faðma hvort annað. Við vitum aldrei hvað morgundagurinn færir okkur.