Mynda­vél­ar reikna út meðal­hraða á Grinda­vík­ur­vegi

23.Ágúst'17 | 09:36
hrað

Mynd/Vegagerðin

Vega­gerðin bind­ur von­ir við að strax á næsta ári verði tekn­ar í notk­un mynda­vél­ar sem mæla meðal­hraða öku­tækja á sex til sjö kíló­metra kafla á Grinda­vík­ur­vegi. Þetta seg­ir Auður Þóra Árna­dótt­ir, for­stöðumaður um­ferðardeild­ar hjá Vega­gerðinni, í sam­tali við mbl.is.

Svo gæti farið að slíkt mynda­véla­kerfi verði einnig til staðar í nýj­um Norðfjarðargöng­um en útboðsferli stend­ur þar yfir.

Sjálf­virkt eft­ir­lit á meðal­hraða bif­reiða fækk­ar slys­um stór­lega og spar­ar sam­fé­lag­inu pen­inga, að því er fram kem­ur fram í skýrslu frá verk­fræðistof­unni Mann­vit, sem unn­in var í sam­starfi við um­ferðardeild Vega­gerðar­inn­ar, með það að mark­miði að kanna kosti og galla inn­leiðingu meðal­hraðaeft­ir­lits.

Borg­ar sig hratt upp
Það tek­ur aðeins um eitt ár að vinna til baka þann kostnað sem til fell­ur við upp­setn­ingu og rekst­ur mynda­vél­anna. Ábat­inn til 50 ára, að frá­dregn­um kostnaði, er í skýrsl­unni met­inn á einn til einn og hálf­an millj­arð króna á hvern veg­kafla. Að baki þeim töl­um eru tölu­leg­ar for­send­ur sem byggja á virði manns­lífa.

Í meðal­hraðaeft­ir­liti felst að tek­in er mynd af öku­manni og núm­era­plötu bif­reiðar á ein­um punkti. Jafn­framt er þar skráður niður hraði öku­tæk­is og öxulþungi þess. Á hinum enda veg­kafl­ans er svo tek­in sams kon­ar mynd en hug­búnaður sér um að reikna meðal­hraða bíls­ins á veg­kafl­an­um. Hafi ökumaður ekið hraðar en leyfi­leg­ur há­marks­hraði kveður á um, er öku­manni gert viðvart með rauðu blikk­andi ljósi. Hann má þá eiga von á því að þurfa að borga sekt, að und­an­geng­inni grein­ingu starfs­manna, sem yf­ir­fara mynd­ir af þeim sem brot­leg­ir reyn­ast. Öðrum mynd­um er eytt.

Frétt mbl.is: Sjálf­virkt eft­ir­lit fækk­ar slys­um

Í skýrsl­unni kem­ur fram að hugs­an­lega hefði verið hægt að koma í veg fyr­ir um 14 al­var­leg slys og sex bana­slys í um­ferðinni ef sjálf­virku meðal­hraðaeft­ir­liti hefði verið beitt á ákveðnum veg­köfl­um. Hægt er að lesa greinina í heild sinni inn á mbl.is

Bald­ur Guðmunds­son
bald­urg@mbl.is