Takk fyrir síðast Bjarni

28.September'17 | 15:35

Heill og sæll Bjarni og takk fyrir síðast!  Þetta var ansi mikið stuð og verð ég að segja að þú komst mér glettilega á óvart með söng þínum, ég átti ekki von á að þú byggir yfir þessum hæfileikum líka.  Við þurfum að endurtaka leikinn við tækifæri og þá mæti ég að sjálfsögðu með gítarinn.

Við höfum af og til verið í sambandi síðan kosið var á síðasta ári og verð ég nú að segja eins og er Bjarni minn, að mér hefur ekki fundist þú fara nógu mikið eftir því sem ég er að reyna ráðleggja þér.  Svo ef þú vilt halda áfram að leita til mín, þá er ég vonandi ekki frekur að biðja þig um að fara eftir mínum ráðleggingum.

Hvað með það, snúum okkur að máli málanna. 

Söngvarinn virðist hafa misst röddina og vill stíga niður af sviðinu og kannski var þetta síðasta lag einfaldlega of erfitt fyrir hann og röddin fór!  Hann var hins vegar búinn að vera missa lagið hægt og bítandi og sennilega var þetta síðasta bara kornið sem fyllti mælinn.  Þetta samstarf ykkar virtist frá degi eitt, vera byggt á veikum grunni og kannski þurfti það ekkert að koma á óvart því áherslur ykkar eru ansi ólíkar.  Ég átta mig ekki alveg á þætti Benna og þekki hann bara ekki nægjanlega vel til að þora tjá mig um hann en það skiptir líka ekki neinu máli núna, þetta band hefur lokið leik og var ekki beðið um uppklappslag.

Aftur skal haldið í kjörklefann og við tökum því bara enda var sennilega lítið annað í stöðunni.  Ef illa á ekki að fara Bjarni minn þá hvet ég þig til að taka meira mark á orðum mínum núna en síðast!  Við vitum báðir að „ippon seoi nagi“ er ekki raunhæft markmið og ef þú ætlar að halda þeim titli sem þú berð í dag, þá muntu þurfa deila sviðinu aftur.

Mér finnst þetta fjaðrafok í kringum skituna hans pabba þíns hafa verið full mikið.  Það hefur aldrei þótt sanngjarnt að hengja bakara fyrir smið og þú gast ekkert gert af þessu dómgreindarleysi föður þíns.  Eins er búið að sýna fram á að Sigríður dómsmálaráðherra gerði ekkert rangt varðandi leyndina sem þurfti að vera yfir þessum málum en reyndar hef ég ekki alveg skilið út af hverju hún mátti gefa þér þessar upplýsingar, var hún þá ekki að brjóta þennan trúnað?  Kannski ekki en í mínum huga ljóst að þú gast og máttir ekki á þessum tímapunkti í sumar, segja Óttari og Benna frá þessu.  Svo að Óttar noti þetta sem afsökun er lélegt!

Umfjöllun um þessi kynferðisafbrotamál hefur verið hávær að undanförnu í þjóðfélaginu og er það vel.  #höfum hátt er virkilega flott slagorð og á fyrrum sveitungi minn, Bergur Þór Ingólfsson og hans fjölskylda mikinn heiður skilinn fyrir baráttuna.  Það versta fyrir fórnarlömb þessara ömurlegu glæpa, er að allt sé þaggað niður.  „Skilaðu skömminni“ er annað ofboðslega flott slagorð og á svo virkilega vel við ef þú spáir í það.  Út af hverju á fórnarlamb að þurfa bera þá ímynduðu skömm sem það ber?  Er ekki nær að fórnarlambið losi sig undan henni og sendi hina raunverulegu skömm þangað sem hún á heima, á sjálfan glæpamanninn?

Ég er viss um að þú, Sigíður og aðrir ráðamenn munið taka vel á þessum málum og breyta þessu bulli með vinnulagið á uppreist æru. Auðvitað eiga menn og konur að eiga möguleika á að snúa aftur inn í samfélagið sem nýtir þegnar en einhvers staðar hlýtur að þurfa draga línu.  Það er ekkert eðlilegt við að leikskólakennari t.d. sem brýtur gegn börnum, geti haldið áfram að vinna á leikskóla eftir að hann hefur afplánað dóm sinn.  Af hverju á viðkomandi ekki að geta unnið aðra vinnu?  Eins og þetta kjaftæði með þennan Downey-dude, af hverju verður hann að vinna áfram sem lögfræðingur?  Af hverju getur hann ekki bara skellt sér á frystitogara eins og ég?  Er reyndar ekki viss um að við myndum taka honum fagnandi og hann myndi eflaust lenda í klónum á Einari Hannesi eins og þú sást hvernig ég lenti í, í þriðja þættinum af „Hásetar“.  En að Róbert fái þessa uppreist æru og geti snúið til baka sem lögmaður og komist aftur í tæri við unglinga, þetta auðvitað bara gengur ekki upp.  Væntanlega vissu þeir sem skrifuðu upp á meðmælin fyrir hann, ekki alveg hvað þeir voru að skrifa upp á og vissulega voru þeir í erfiðri stöðu gagnvart vini sínum og héldu að það kæmi aldrei í ljós að þeir hefðu skrifað undir en því miður fyrir þá, þá er staðreyndin önnur.  Þarna inn á milli eru menn sem eiga fyrirtæki með flottu vörumerki og er ég ansi smeykur þeirra vegna að ef þeir girða sig ekki almennilega í brók að þá geti þeir sturtað vörumerkinu niður með næsta úrgangi úr sér.......   Þessir menn eiga allan möguleika á að forðast slík örlög, þurfa einfaldlega að stíga fram og lýsa opinberlega yfir hversu mikil mistök þeir hafi gert og þeir muni glaðir láta vinskap við dæmdan barnaníðing fara norður og niður og dragi meðmælin glaðir til baka ef þeir geti!

Þetta með þessi kynferðisafbrotamál er nú svo sem útúrdúr en ég hvet þig áfram Bjarni minn, til að koma aðeins meira í átt að miðjunni í þinni pólitísku hugsun.  X-D getur alveg breyst og aðlagað sig aðstæðum en í dag kallar almúginn á meiri jöfnuð.  Þorsteinn Már og aðrir Samherjamenn blása auðvitað á slíkt en þú mátt ekki láta þá og aðra MILLJARÐAMÆRINGA stjórna þér.  Stattu í lappirnar og segðu þessum gaurum að til að mynda sátt í þessu samfélagi þá þurfi allir að leggjast á árarnar.  Ég tel mína leið áfram vera besta í því; að einstaklingar og fyrirtæki borgi stigvaxandi skatt eftir því sem betur gengur.  Ég er alveg til í að leggja meira í samfélagspúkkið, þeim mun betur sem mér gengur, bæði sem venjulegur launþegi og eins ÞEGAR ég verð kominn með flottan rekstur!  Ef ég eða fyrirtæki mínu vegnar betur og betur, þá er ég alveg til í að borga meiri og meiri skatt.  Er það ekki sanngjarnt fyrir alla?

Spáðu í þessu Bjarni minn og við verðum í sambandi.