Hamingjuhornið

Hamingjan kemur ekki á gullplatta

24.Janúar'18 | 10:15

Ég verð svo miklu hamingjusamari þegar ég verð aðeins grennri, já eða þegar ég finn rétta karlinn, eða kannski bara þegar ég skil við karlinn. Nú eða þegar ég fæ aðra og betri vinnu, eða hina langþráðu kauphækkun, já eða bara þegar ég vinn í lottóinu. Ég verð örugglega miklu hamingjusamari þegar líf mitt er einhvern veginn allt öðruvísi en það er í dag – hvernig, veit ég bara ekki!

 

Hver hefur ekki upplifað tímabil sem endurspeglast í þessum viðhorfum – ef líf mitt væri bara öðruvísi en það er í dag, þá væri allt svo miklu betra! 

Ég hef skrifað pistla í Hamingjuhornið mitt síðan haustið 2011. Markmið mitt frá byrjun hefur verið að hreyfa við fólki og skoða hvaða þættir það eru sem auka á hamingju okkar og hvernig við sem einstaklingar getum tekið meiri ábyrgð á lífi okkar þegar kemur að því að upplifa hamingjuríkara líf.

En það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það að vera hamingjusamur þýðir ekki að vera alltaf hoppandi kátur og glaður. Lífið er nú einu sinni þannig að við fáum öll úthlutað erfiðum verkefnum í lífinu og þó við getum ekki haft áhrif á aðstæður þær sem liggja að baki þessum verkefnum, getum við haft áhrif á afstöðu okkar og viðhorf til þess sem við erum að upplifa. Við getum verið hamingjusöm þrátt fyrir að upplifa hæðir og lægðir í lífinu, enda heldur lífið áfram að senda okkur verkefni til að takast á við. Pistlarnir mínir fjalla ekkert síður um að komast í gegnum áskoranir lífsins og þar kemur jákvæða sálfræðin að góðum notum en það var einmitt í framhaldsnámi mínu sem ég fékk innsýn í þær rannsóknir sem þar hafa verið gerðar. Þessar rannsóknir snúa meðal annars að því að skoða hvaða þættir það eru sem einkenna fólk sem lifir lífinu vel, er hamingjusamt og virðist ráða betur við erfið verkefni og áskoranir en margir aðrir.

Þegar við viljum öðlast hamingjuríkara líf þarf það ekki að þýða að við lifum í tómri óhamingju í dag. Við getum verið sátt en samt viljað fá aðeins meira út úr lífinu. Það er jafnvægið sem skiptir máli í þessu sem mörgu öðru, að feta þá línu sem liggur á milli þess að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er og vilja stöðugt vera að vaxa og þroskast. En á sama tíma og ég segi þetta er mikilvægt að við séum ekki að fresta hamingjunni eins og ég vísa til hér í byrjun þessa pistils því hamingjuríkara líf snýst ekki síst um það að vera þakklátur og njóta þess sem maður á, í stað þess að bíða eftir því að eitthvað utanaðkomandi færi okkur hamingjuna á gullplatta. En auðvitað gætum við verið að upplifa erfiða tíma og þá er ágætt að huga að því hvaða þættir það eru sem einkenna hamingjusamt fólk. 


Gott sjálfstraust skiptir þar miklu máli og sú tilfinning að maður sé sjálfur við stjórn í lífi sínu. Það er erfitt að upplifa sig eins og lauf í vindi sem fýkur til og frá eftir því hvað öðrum finnst. Við þurfum að vita hvernig lífi við sækjumst eftir og taka svo um stýrið og stefna þangað. Hvaða hlutir eru það sem þú mundir vilja hafa öðruvísi og ertu meðvituð/-aður um hvernig þú mundir vilja hafa þá! Á sama tíma og þetta er sagt er aldrei nógu oft minnt á að við breytum engum nema okkur sjálfum og þegar „fíflunum“ fjölgar í kringum okkur er klárlega tími til að líta inn á við. 

Það sem einkennir þá sem eru hamingjusamir eru góð tengsl við aðra. Þeir eru yfirleitt félagslega sterkir einstaklingar og leita út á við eftir orku. Þeir upplifa líka þakklæti og finnst þeir vera ótrúlega heppnir og sjá glasið frekar hálffullt en hálftómt. Þeim hættir síður til streitu þar sem þeir vita hvað er gott og hollt fyrir þá og fylgja því eftir. Hamingjusamir einstaklingar eru í góðum tengslum við fjölskyldu sína og sinna henni vel en það verður að taka það fram hér að stundum er fjölskyldan okkar ekki endilega sú sem við fæðumst inn í, heldur fólk sem við höfum valið inn í líf okkar. Þeir sem eru hamingjusamir upplifa vinnuna sína á jákvæðan hátt og upplifa að það sé tilgangur með því sem þeir eru að gera og komast gjarnan í flæði þar sem þeir gleyma sér við verkefnin.  

Svo kannski það mikilvægasta, hamingjusamir einstaklingar fá sömu verkefni og allir aðrir. Erfiðir tímar og harmleikir lita líf þessa einstaklinga eins og annarra en þeir virðast sýna sjálfstjórn og styrk þegar tekist er á við þessar áskoranir. En svona að lokum, hamingjuríkara líf mótast sjaldan af einhverjum einum atburði sem breytir lífi okkar; það mótast stig af stigi, af reynslu á reynslu ofan, augnablik fyrir augnablik! 

Ég hvet þig til að kíkja í Hamingjuhornið