Tækifærin leynast víða..

27.Janúar'18 | 15:39

Ég hef alltaf lesið og fylgst með Grindavík.net og fundist sá miðill bæði nauðsynlegur og skemmtilegur, nauðsynlegur fyrir samfélagið okkar því við sem samfélag þurfum aðhald og góða penna sem vekja athygli á hinum ýmsum málefnum sem skipta máli og lífga upp á daginn okkar með skemmtilegum frásögnum.

Ritstjóri, er titill sem ég átti nú ekki von á að fá enda var ég svo sem ekki að leitast eftir slíkum titli eða tækifæri en tækifærin leynast víða og koma okkur oft á óvart. Ég sjálf er spennt fyrir þessu verkefni og þakklát fyrir frábærar móttökur. Einnig vil ég benda á, að ef þú hefur áhuga á að vera penni eða einfaldlega skrifa pistil stöku sinnum að þá skaltu vera óhrædd/ ur við að hafa samband hvort sem það er undir nafni eða ekki. Grindavik.net mun halda áfram að vinna heiðarlega og trúnaður haldin sé þess óskað.

Það verða ekki gerðar dramatískar breytingar á miðlinum sem slíkum en breytingar verða þó einhverjar og vonandi bara til að gera gott enn betra. Þar sem þetta ritstjóra hlutverk er nýtt fyrir mér mun ég þurfa smá tíma til að læra inn á þetta frábæra verkfæri sem ég hef í höndunum. Markmiðið er að nýta grindavík.net til þess að upplýsa lesendur/ fylgjendur um það sem gerist í samfélaginu en einnig ræða það sem þarf að gerast. 

Sæbjörg Erlings