Burt með þynnkuna- 8 góð ráð og UPPSKRIFT!

28.Janúar'18 | 02:27

Sennilega skemmtir þú þér ótrúlega vel í gær og hugsanlega ertu að takast á við afleiðingarnar núna, ef þú valdir að drekka áfengi þér til skemmtunar!

  1. Besta ráðið gegn þynnku er auðvitað að bragða ekki áfengi. Kjósi maður hins vegar að drekka er best að gera það í hófi.

  2. Drekktu vatn… mikið af því. Ávaxtasafi virkar líka vel og svo eru margir sem segja að sítróna út í volgt/heitt vatn sé gott við  timburmönnum. Ef þér er mjög flökurt þá róar engiferte eða heitt vatn með engifer magann. Gatorade íþróttadrykkur er líka fínn kostur í þynnkunni.

  3. Hreyfðu þig.. Létt æfing getur hjálpað í baráttunni við þynnkuna. Þ.e. ef þú kemst af stað!

  4. Sofa. Á verstu morgnunum getur það stundum verið eina ráðið og þá er bara sofið út í eitt, fram eftir öllum degi. Þeir sem upplifa það eftir hvert djamm ættu að taka drykkjuvenjur sínar til endurskoðunar

  5. Treo og C-vítamín virka vel á slæmum morgnum. Best er þá að vakna snemma og blanda eina töflu af Treo (uppleysanlegu höfuðverkjalyfi sem fæst án lyfseðils í apótekum) og eina töflu af uppleysanlegu C-vítamíni út í hálfslíters vatnsglas, dengja því í sig og helst ná að sofna aftur í svona u.þ.b. klukkustund.

  6. Fituríkur matur virkar fyrir suma en það eru ekki til neinar rannsóknir sem staðfesta að það hjálpi. Ristað brauð eða önnur kolvetni sem eru ekki mikið bragðbætt draga úr ógleði og hjálpa líkamanum drekka upp eitrið í kerfinu þínu.

  7. Farðu í sturtu! Sturtan vekur þig og hressir þig við. Sumum finnst gott að skipta nokkrum sinnum á milli þess að hafa sturtuna heita og kalda.

  8. Sumir lifa í þeirri trú að afréttarinn sé málið og fá sér einn ölara þegar þeir vakna. Þó er alls ekki mælt með þeirri aðferð til að vinna bug á þynnku. Og þeir sem þrá afréttarann... þeir ættu kannski líka að endurskoða drykkjuvenjurnar og kynna sér starfsemi SÁÁ.

 

Hér kemur UPPSKRIFT af mjög góðum drykk sem svo sannarlega getur hjálpað ykkur í gegnum þennan erfiða tíma !!

1 tsk rifinn engifer

2 tómatar

1 1/2 bolli kókosvatn

1 tsk steinselja

1 sítróna

Allt sett saman i blandara með klökum. Drekkist ískalt !