Bless Ísland og halló Tenerife!

„Áður en ég fór út í morgun, þurfti ég fyrst að fara í smá leiðangur í fataskápnum. Einhverstaðar þarna inni var jakkinn minn, en ég hafði ekki haft not fyrir hann í 3 mánuði.“

29.Janúar'18 | 01:30

Hún Kata Erla Erlingsdóttir ákvað að hlusta á hjartað og halda á vit ævintýrana, en hún flutti til Tenerife síðastliðin októmber og er ekkert á leiðinni heim í kuldan! Við hjá Grindavik.net settum okkur í samband og fengum hana til liðs við okkur, en hún mun skrifa pistla og senda okkur fréttir um lífið og ævintýrið á Tene! Kata bjó lengi vel hér í Grindavík og má kannski segja að við grindvíkingar séum búin að eigna okkur góðan hlut í henni..

 

„Sumarið 2017 var ég að leita mér að íbúð til leigu, ekki var mikið í boði og blöskraði mér leiguverðið. Þarna ákvað ég að hlusta á litla “fiðrildahjartað” mitt sem annað slagið biðlaði til mín um að flytja frá Íslandi. Ég elska Ísland og er stoltur Íslendingur, en veðráttan á ekki vel við gigtarlíkamann minn. Ég fór að lesa mér til um hlýrri staði, strax kom Spánn upp í huga mér. En ég er nú Íslendingur eftir allt saman og vildi heldur ekki fara eitthvert þar sem yrði of heitt yfir sumartímann. Kanaríeyjarnar virtust vera mjög vinsæll staður fyrir gigtarfólk þar sem hitastigið er svipað allan ársins hring. Ég ákvað þarna að ég ætlaði að flytja til Tenerife!

31. Október flaug ég svo í jakkanum mínum góða í fyrsta skipti til Tenerife með 2 töskur og tilhlökkun í hjarta.

Fyrstu 6 vikurnar var ég í íbúð á besta stað á Amerísku ströndinni, sem er aðal túrista svæðið.  En ég varð fljótt þreytt á því enda nánast bara ferðamenn þar og mikið áreiti af fólki sem vill selja manni allt milli himins og jarðar. Ég datt sannarlega í lukkupottinn og fann íbúð til langtímaleigu í Los Gigantes sem er minni bær um 20km frá. Hér finnst mér ég vera komin heim!

Þeir sem hafa komið til Los Gigantes muna sennilega eftir öllum brekkunum... það var eini gallinn sem ég fann við þennan stað. En nú eru kálfarnir mínir farnir að samþykkja þetta brekkurölt á mér og leyfa mér að skoða mig enn meira um.

Vefjagigtin er mun betri hér úti, ég skil vel afhverju gigtarfólk kemur hingað vikunum saman yfir vetrartímann. Það er líka mun skemmtilegra að fara í göngutúra í svona þægilegu veðri, ekki kaldri rigningu og roki. En það sést enn langar leiðir að ég sé frá Íslandi, húðin mín neitar að gefa upp þennan fallega föla íslenska húðlit.                                                                                                                                               

Spánverjar virðast hafa smá ofnæmi fyrir ensku, allavega tala mjög fáir hana hérna. Leiklistahæfileikar mínir hafa aukist til muna eftir að ég flutti hingað, enda tala ég oftast við Spánverjana með handapati og leik. Mér er farið að finnast þannig samskipti bara mjög skemmtileg, ég skil vel afhverju flestir Spánverjar tala mikið með líkamanum og höndunum. Ég er þó búin að skrá mig á spænsku námskeið og bíð spennt eftir að sjá hvort þau kenni mér einhverjar nýjar handahreyfingar þar.

Dagurinn í dag var kaldasti dagurinn minn hingað til. Ég sit hér upp í sófa í jakkanum góða, í ullarsokkum, með teppi og drekk te. Ísland má eiga það að við kunnum að hita upp húsin okkar. Hér er oftast óþarfi að hita upp, en koma þó svona köld kvöld yfir vetrartímann. Eitthvað hvítt duft lagðist yfir fjalltindana hérna í dag, við nánari skoðun kom í ljós að þetta var snjór. Ég og heimamenn löbbuðum um í jökkum og úlpum í dag meðan ferðamennirnir neituðu að yfirgefa sandalana og stuttbuxurnar sínar. Íslendingurinn í mér er strax farinn að gleyma hvað kuldi er, hvernig verður að koma aftur á klakann í heimsókn ?“