Á að banna umskurð drengja á Íslandi? Myndir ekki fyrir viðkvæma !

10.Febrúar'18 | 14:40

„Ef Ísland myndi banna umskurð með lögum þá myndi það stríða gegn trúfrelsi einstaklinga.“ Stríð, morð, rán, nauðganir ofl. Allt framkvæmt í trúarlegri merkingu,​ ekki satt? Silja Dögg þingmaður fer aðeins ofan í umdeilt mál um umskurð..

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti nýlega fyrir frumvarpi um breytingar á hegningarlögum, sem lúta að því að banna umskurð á drengjum með lögum. Síðan 2005 hafa verið í gildi lög á Íslandi sem banna umskurð á stúlkum og konum.

Barnaverndarsjónarmið

„Ég hafði aldrei velt þessum málum sérstaklega fyrir mér en fyrir nokkrum mánuðum var mér bent á að umskurður á drengjum væri ekki bannaður með lögum á Íslandi. Ég komst m.a. yfir yfirlýsingu frá Umboðsmönnum barna á öllum Norðurlöndum frá árinu 2013, þar sem umboðsmennirnir hvetja norræn ríki til að taka frumkvæði og banna umskurð á drengjum þar sem umskurður stangist á við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í framhaldinu aflaði ég mér frekari gagna og ákvað að leggja fram frumvarp um málið,“ segir Silja Dögg aðspurð um hvers vegna hún hafi lagt málið fram.

Mörg bréf frá gyðingum sem styðja frumvarpið

Í umræðunni hafa m.a. komið fram þau sjónarmið að ef Ísland myndi banna umskurð með lögum þá myndi það stríða gegn trúfrelsi einstaklinga og því sé frumvarpinu beint sérstaklega gegnt ákveðnum trúarhópum. „Frumvarpið grundvallast á barnaverndarsjónarmiðum og frelsi þeirra til að taka ákvarðanir um eigin líkama og á hvað þau vilja trúa þegar þau hafa aldur til. Umskurður er óafturkræf aðgerð, ónauðsynleg aðgerð og getur valdið sýkingarhættu og ýmsum vandkvæðum ævina á enda. Ég ber mikla virðingu fyrir öllum trúarbrögðum og þess má geta að umskurður er mjög algengur í Bandaríkjunum og tengist ekki endilega einstökum trúarbrögðum,“ segir Silja og heldur áfram: „Ég hef einnig fengið fjölda bréfa frá gyðingum, konum og körlum, búsettum í Bandaríkjunum, Ísrael og víðar. Þetta fólk hefur sagt mér sína sögu. Sumir segjast hafa látið umskera syni sína og sjá eftir því, aðrir segjast ekki ætla láta umskera syni sína og sumir karlmenn, sem voru umskornir sem drengir, segja mér að þeir hefðu ekki viljað láta umskera sig, hefðu þeir fengið að velja. Þannig að það er ekki algilt að gyðingar séu fylgjandi umskurði. Þeir gyðingar sem hafa haft samband við mig segja mér að það séu alltaf fleiri og fleiri innan þeirra samfélags sem berjast gegn þessari fornu siðvenju. Þeir telja hana barbaríska og brjóta gegn mannhelgi og frelsi einstaklingsins, þ.e. barnsins. Þessi hópur telur að það yrði foreldrum stuðningur ef slík lög yrðu sett, þar sem félagslegur þrýstingur um umskurð er oft mjög mikill og erfitt fyrir foreldra að standast hann, þó þau vilji í raun ekki láta umskera börnin sín. Þau gætu þá frekar komist undan hefðinni, ef svo má segja, ef þau gætu sagt að þau vildu ekki fremja lögbrot,“ segir Silja.

Nefndin rannsakar málið

Ef Alþingi setur lög sem banna umskurð á drengjum, þá yrði það fyrsta landið í heimi sem gerir slíkt. Slíkt fordæmi myndi auka þrýsting á önnur lönd að gera slíkt hið sama að sögn Silju Daggar. En hvað næst?

„Nú hef ég semsagt mælt fyrir málinu. Málið er þó ennþá til umræðu í þingingu og gengur að henni lokinni til Velferðarnefndar, líklega eftir 2 vikur. Nefndin rannsakar þá málið, þ.e. fer yfir sjónarmið ólíkra aðila og skila að lokum áliti til Alþingis. Þá verður málið tekið til umræðu að nýju áður en gengið er til atkvæða. Ekki er víst að málið klárist á þessu þingi, en þá mun ég leggja það fram að nýju í haust,“ segir Silja Dögg að lokum.