Er barnið þitt að tala við ókunnuga í gegnum Playstation?

12.Febrúar'18 | 16:56

Vefnum hefur borist ábending frá foreldrum um að fara yfir playstation reikninga barna sinna. 

Upp hefur komið atvik þar sem playstation reikningur hjá nemanda í 4.bekk í Grindavík hefur verið hakkaður af óprúttnum aðilum.

Í mörgum tölvu leikjum hvort sem það er í playstation eða öðrum tækjum er hægt að tala við fólk í gegnum þar til gerðar spjallsíður sem tengjast leikjunum.

Síðastliðna viku hefur nokkuð borið á því að einhverjir nemendur eru að fá beiðnir frá þeim sem þeir telja vera vini sína um að fá sent lykilorð og netfang gegn því yfirskini að þau fái pening í formi svokallaðra „vbox“eða„coins“ inn í leikinn sem verið er að spila.

Reyndin er sú að á bak við þetta standa aðilar sem eru búnir að „hakka“ sér leið inn á reikning vinanna í von um að komast inn á reikninga eða kreditkort þess sem á reikninginn.

Dæmi eru til hér í bæ að talsverðar fjárhæðir hafa verið teknar út af visa kortum tengdum playstation reikningum.

Við hjá Grindavik.net viljum biðla til foreldra að ræða við börnin um hætturnar sem geta fylgt netnotkun og því að gefa upp lykilorð eða aðrar persónu upplýsingar á netinu.

Viljum við benda foreldrum á að kynna sér vefsíðuna www.saft.is en einnig er hægt að nálgast efni frá Saft og ýmsan fróðleik þessu tengt á facebook undir síðunni Netöryggi barna.