Jákvæð og uppbyggjandi kennsluhættir í 2. bekk

12.Febrúar'18 | 00:15

Síðastliðinn föstudag buðu nemendur í 2. bekk foreldrum í útgáfuveislu á Herramannsbókunum sínum. Bækurnar unnu þau sjálf frá grunni með aðstoð kennara en alls eru krakkarnir 51 talsins, saman í stórum bekk, með þrjá kennara og svo stuðning.

 

Jákvæð kennsla og skemmtileg skólaverkefni er eitthvað sem meira mætti fjalla um en mikilvægt er að koma inn á hvað metnaður og ástríða í starfi eins og þessu, að vera kennari, og með svo stóran hóp nemenda skiptir miklu máli. Þegar slíkt á sér stað þá græða allir, nemendur, kennarar og foreldrar. Ég sem móðir á dóttir í þessum tiltekna bekk og fannst þetta verkefni/ útgáfuveislan alveg frábært. Þarna er búið að búa til skemmtilegt skólaverkefni sem inniheldur margar kennslu aðferðir er snertir lestrakennslu og íslensku.

Verkefnið skapar með þessu vettvang þar sem nemendur geta notað sköpunargáfu sína við námið sem gerir það skemmtilegt. Þarna er verið að leyfa börnunum að taka virkan þátt í náminu þar sem þau búa til efnið sjálf, semja söguna, setja inn myndir, texta, vinna í tölvum og hvetja þannig nemendur til að láta ljós sitt skína.

Þetta frábæra skólaverkefni er partur af lestrakennslu þar sem Grunnskóli Grindavíkur ákvað í upphafi skólaárs að tileinka sér Byrjendalæsi. „Byrjendalæsi er í raun ekki ein lestraraðferð heldur hattur yfir nokkrar aðferðir.“ Segir Ásrún Helga Kristinsdóttir aðspurð um verkefnið, en hún er ein af þremur kennurunum sem kenna þessum tiltekna bekk.

Hvernig fer svona verkefni fram

„Unnið er með merkingarbæran texta og sóst í þekkingar- og reynsluheim nemenda og spilar þá sköpunargáfa nemenda stóran þátt í þeirri vinnu. Nemendur í 2. bekk lásu í janúar bækurnar um herramennina og ungfrúrnar. Bækurnar hittu svo sannarlega í mark og voru nemendur mjög áhuga- og vinnusamir. Í þessari vinnu var lögð mikil áhersla á ritun og þá aðallega að nemendur gætu komið hugsunum og hugmyndum frá sér en nemendur enduðu frábært ferli á því að gefa út sínar eigin bækur um sinn herramann eða ungfrú.“ Segir Ásrún og heldur áfram: „Innleiðingin hefur gengið vel og eru kennarar og nemendur á yngsta stigi áhugasamir í vinnunni, Einnig vorum við svo ánægðar með frábæra mætingu og nemendur okkar svo yfirvegaðir og öruggir í veislunni.“

Gaman er að segja frá því að nokkrir nemendur voru með upplestur úr sínum bókum þar sem þau stóðu við púlt og lásu upp í míkrafón, alveg óhrædd. Tekið var fram að færri komust að en vildu en til að leyfa öllum að njóta var hafður höfundar stóll í hverju horni þar sem krakkarnir gátu verið með upplestur hver úr sinni bók. 

 

Takk fyrir flotta vinnu stelpur, Ásrún Helga Kristinsdóttir, Anna Lilja Jóhannsdóttir og Gréta Dögg Hjálmarsdóttir, kennarar í 2. aág, Grindavík.