Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðar

20.Febrúar'18 | 11:30

Grindvíkingur úti í atvinnumennsku, spilar með sænka liðinu Djurgården

Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir er einn flottasti íþróttamaður í dag sem við Grindvíkingar eigum. En Ingibjörg fluttist til Svíþjóðar strax eftir áramótin, til að leika með liðinu Djurgården í Svíþjóð.  Ingibjörg er aðeins tvítug og býr yfir svakalegum krafti þegar kemur að fótbolta. Við hjá grindavik.net heyrðum aðeins í henni nú á dögunum en lífið hennar hefur í raun snúist svolítið mikið um fótbolta alla hennar tíð.  „Ég var örugglega 4-5 ára þegar ég byrjaði að æfa“ sagði hún,  en Ingibjörg spilar í miðvarðarstöðunni í vörninni.

mbl.is

Þú hefur spilað með 2 liðum og svo fórstu út til Svíðþjóðar í atvinnumennsku. Hvernig var það fyrir þig?  Það var stórt skref fyrir mig að fara frá Grindavík og yfir í Breiðablik á sínum tíma og ég er mjög ánægð að hafa gert það. Þar var ég í mikilli samkeppni í um 3 ár en síðan um leið og ég fann að ég var kominn í ákveðinn þægindarramma þar þá fannst mér tími til að fá meiri áskorun og þá ákvað ég að fara í annað lið og Djurgården var mjög spennandi kostur fyrir mig. Það að fá þetta tækifæri er mjög spennandi fyrir mig og mjög gott tækifæri til þess að verða betri leikmaður. Hingað til hefur gengið mjög vel, ég hef lært mjög mikið og fæ erfiðar og góðar æfingar sem eiga klárlega eftir að gera mig að betri leikmanni.

Hver finnst þér erfiðasti mótspilari sem þú hefur spilað á móti?  Þegar ég spilaði með Fanndísi Friðriks í Breiðablik þá reyndi ég að spila vörn á móti henni í spili á æfingu því hún var lang best og það var mjög erfitt að spila vörn á móti henni! Það koma nokkrar til greina hjá erlendu leikmönnunum, Lieke Martens sem er best í heimi er mjög fljót og með góða tækni þannig það var mjög erfitt að spila á móti henni, síðan er auðvitað mjög erfitt að spila á móti Mörtu frá Brasilíu og Síðan er Alexandra Popp í Þýskalandi fáránlega góð og sterk.

Hvernig fannst þér að keppa þinn fyrsta landsleik 2017? Það var ótrúlega skemmtilegt, gríðarlega stórt augnarblik fyrir mig því ég setti mér þetta markmið þegar ég var mjög ung.  Þú ert algjör klassa leikmaður í vörn og það virðist vera eins og þú sért ekki hrædd við neitt þegar þú ert komin á völlinn. Verðiru aldrei stressuð? Jú maður verður alltaf smá stressaður en þetta er aðallega spennutilfinning, það er eðlilegt, en síðan um leið og leikurinn byrjar þá er maður ekkert að pæla í neinu nema að spila eins vel og maður getur og gefa allt sem maður á í leikinn.

Hvað er það vandræðalegasta sem þú hefur lent í, í fótbolta? Ég man ekki eftir neinu sérstöku sem var vandræðalegt en einu sinni var ég að spila úrslitaleik með 2. flokki í Breiðablik og kom inn á en entist ekki í nema tæpar 10 mínútur því ég fékk neglu í andlitið og vankaðist, hélt aðeins áfram og fékk síðan aðra neglu í andlitið nokkrum mínútum seinna og var þá tekin útaf, ég get allavega ekki sagt að þetta hafi verið besti leikurinn minn.  Ertu hjátrúarfull fyrir leiki, t.d. alltaf með sömu rútínuna fyrir leik? Ég er ekki hjátrúarfull en ég reyni að borða það sama á leikdegi og svipuðum tíma, hlusta á tónlist, hugleiða aðeins um það hvað ég ætla að gera í leiknum og spjalla við liðsfélagana.

Hver er fyrirmyndin þín? Aron Einar hefur alltaf verið mikið í uppáhaldi hjá mér og ég lýt mikið upp til hans, síðan eru það stelpurnar sem eru með mér í landsliðinu sem eru ennþá miklar fyrirmyndir fyrir mig og ég læri mikið af þeim.  

grindavik.is

Hver er stuðningsmaður nr. 1 hjá þér? Fjölskyldan mín eru mínir stuðningsmenn númer 1,2 og 3 og þá sérstaklega mamma og pabbi, þau missa varla af leik og hafa alltaf gert allt til þess að hjálpa mér að ná markmiðunum mínum.  

Ráð fyrir ungar fótboltastelpur? Að æfa aukalega er númer 1,2 og 3 og alltaf fara á allar æfingar með því markmiði að gera allt sem þú getur til þess að bæta sig og verða betri. Síðan skiptir svefn og mataræði mjög miklu máli, æfingarnar borga sig ekki ef þetta tvennt er ekki í lagi. Það er líka gríðarlega mikilvægt að setja sér markmið, stefna hátt og hafa trú á því að maður geti allt. 

 

Hvar sérðu þig í framtíðinni, Spila endalaust fótbolta? Já eiginlega.. Fótbolti er mitt helsta áhugamál, ég er með nokkur markmið sem ég ætla mér að ná áður en ég fer að hugsa um eitthvað annað sem ég vil gera eftir það. Ég hef líka mikinn áhuga á þjálfun þannig kannski maður endi bara í því. Það verður svo sannarlega gaman að fylgjast með henni Ingibjörgu í sumar og á næstu árum. Við þökkum henni fyrir spjallið og gangi henni vel með verkefnin sem bíða hennar í Svíþjóð hjá Djurgården.